mánudagur, 11. desember 2023

Húsnæðis- og innviðaskorturinn

Ljósmynd: Pexels

Húsnæðisskorturinn tekur á sig ýmsar myndir, húsnæði er upptekið vegna skammtímagistingar og eitthvað er um að húsnæði sé keypt og standi autt á meðan beðið er eftir hækkun þess á markaði.  Háir vextir hamla einnig kaupum. Lagalega séð bera sveitarfélögin mikla ábyrgð á þessu sviði því í reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga kemur fram að: 

Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til tíu ára í senn og skal hún staðfest af sveitarstjórn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði. [...]

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ber að fylgja eftir áætlanagerð sveitarfélaga um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og veita ráðgjöf og upplýsingar við áætlanagerðina.

Reglugerð þessi er byggð á húsnæðislögum nr. 44/1998 en í þeim segir í 5. grein: 

„Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu. [Jafnframt fer sveitarstjórn með stjórn og samræmingu húsnæðismála á vegum sveitarfélagsins.]“

Ábyrgðin er því hvers sveitarfélags fyrir sig. Umræðan hefur mikið til snúist um deildar meiningar um hvort beri að dreifa byggðinni eða þétta hana, en ekki hvað veldur því að gerð húsnæðisáætlana ber ekki betri árangur en raun ber vitni. Sveitarstjórnarmenn virðast komast upp með meiri vanefndir ábyrgðar sinnar en alþingismenn, hugsanlega vegna lítils stjórnmálaáhuga- og þátttöku almennings. Héraðsfréttamiðlar eru ekki í stakk búnir til að veita þeim aðhald og áhugi RÚV á þessu sviði er sennilega ekki nægur. Einnig kann að vera að þó að sveitarstjórnarmönnum sé falin mikil ábyrgð eru þeir gjarnan að sinna sveitarstjórnarstarfinu í sjálfboðavinnu og virkur tími þeirra í stjórnmálum því oft stuttur. 

Talsmenn þéttingar hafa nefnt dýrleika innviðauppbyggingar en vitað hefur verið lengi að byggja þurfi litlar íbúðir.  Af hverju sveitarfélögin hafa ekki skipulagt meiri uppbyggingu á minnsta leyfilega húsnæði eða unnið meira að skipulagningu svæða fyrir færanleg smáhýsi er athugunarefni í ljósi ábyrgðar þeirra. 

Í ljósi ábyrgðarinnar er einnig undarlegt að oftar en ekki útvista sveitarfélög skipulagsvaldinu til fjárfesta og láta þeim eftir að sjá um deiliskipulagsgerð, hönnun, uppbyggingu innviða og sölu byggingarlóða!

Varðandi dýrleika innviðauppbyggingar hefur talsmaður þéttingar bent á að grunnskóli kosti rúma 4 milljarða. Í framhaldi af því má benda á að venjan er að skólabyggingar eru sérhannaðar og byggðar á staðnum í stað þess að notast við staðlaða hönnun sem tæki tillit til síbreytilegra þarfa skólanna. Skólahús ættu að vera þannig að auðvelt sé að bæta við einingum eða taka þær úr notkun og endurnýja. Þau ættu að vera úr forsmíðuðum einingum sem hægt er að bæta við, taka burt eða raða saman eins og Legókubbum.  Þannig ættu mygluvandamál t.d. að verða viðráðanlegri. 

Þegar horft er á sumar nýbyggingar skólahúsnæðis síðustu áratuga virðist sem fátt hafi verið sparað til að gera þær að sem glæstustum minnismerkjum um húsagerðarlist. Afurðin er svo gjarnan prjónuð saman við nýjustu kenningar í menntavísindum.  Afleiðingarnar eru flóknar byggingar og samsetningar sem iðnaðarmenn hafa þurft að plástra saman eftirá. Þegar upp er staðið er svo barátta við lélega hljóðvist, lýsingu, hita, kulda, leka og þar á eftir myglu íþyngjandi fyrir reksturinn svo árum skiptir. 



þriðjudagur, 7. nóvember 2023

Tímabærar viðræður


„Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi í gær að ganga til samninga við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um aðkomu að þjónustu Vettvangs- og ráðgjafarteymis Reykjavíkurborgar og mögulegri vetraropnun sérstaks neyðarskýlis.“ Sjá hér: [Tengill]. Í sömu frétt kemur fram að samkvæmt nýlegri skýrslu séu 76 heimilislaus á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. „Við höfum kallað eftir því að fleiri sveitarfélög setji sér stefnu og sinni þessum viðkvæma hópi.“ segir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkur. Óskandi væri að stærstu sveitarfélögin austan Hellisheiðar svari þessu kalli því eins og áður hefur verið bent á, á þessu bloggi gætu óveður og veglokanir sett strik í reikninginn hjá þeim sem gætu þurft á svona þjónustu að halda og staðsett eru á þessu svæði. 

miðvikudagur, 25. október 2023

Sveitarfélög ættu að vera tilbúin með neyðarúrræði fyrir veturinn

 

Mynd: Pixabay
„Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir önnur sveitarfélög verða að opna úrræði fyrir heimilislausa en ekki banna fólki að nýta sér neyðarskýli borgarinnar. Vísa þarf fólki frá vilji sveitarfélög ekki greiða fyrir gistingu.“ Sjá hér. Þetta er tilvitnun í formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá síðastliðnu sumri sem síðan í lok september er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

„Framkvæmdastjóri Samhjálpar segir húsakost kaffistofu samtakanna löngu sprunginn vegna mikillar aukningar gesta síðustu mánuði. Í mars hafi ríflega 200 gestir heimsótt kaffistofuna, en í september hafi fjöldinn farið upp í tæplega þúsund“, sjá hér

Þrátt fyrir að svo virðist sem búið sé að mæta brýnustu þörf og lítið hafi heyrst að undanförnu frá hinum viðkvæma hópi heimilislauss fólks má ætla að veturinn muni hafa í för með sér áskoranir á þessu sviði fyrir sveitarfélögin og þá sérstaklega fyrir önnur sveitarfélög en borgina á höfuðborgarsvæðinu, stór sveitarfélög úti á landi og þá sérstaklega þau sem hætta er á að lokist af frá Reykjavík vegna veðurs og færðar. 

Á Árborgarsvæðinu er til að mynda ekkert neyðarskýli svo aðstandendur gætu þurft að bjarga fólki í neyð inn á heimili sín eða í einhverjum tilfellum aðrir almennir borgarar þegar veglokanir eru vegna illviðra.  Það er ljóst að þau sveitarfélög sem hafa fengið þessa hvatningu formanns samtaka sinna og sinna þeim ekki ætla að velta ábyrgðinni af neyðaraðstoðinni yfir á einstaklinga því í almennum hegningarlögum segir í 221. gr:

„Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það … 1) fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“ 

Ætla má að almenningur sé ekki vel undir það búinn að leggja mat á aðstæður og þurfa að velja milli þess annað hvort að stofna lífi eða heilbrigði sjálf sín í hættu eða láta farast fyrir að koma manni til hjálpar sem knýr dyra um miðja nótt í illviðri og sem virðist vera í annarlegu ástandi. 

Hér þyrfti löggjafinn að skýra betur hvar ábyrgð liggur í þessum aðstæðum því staðan er sú að heimilislausir hvort sem um er að ræða fólk í vímuefnavanda eða aðrir hafa líklega ekki verið fleiri í langan tíma. Þetta ástand var til komið á síðasta ári og síðan þá hefur staðan líklega enn versnað ef marka má orð formanns SÍS sem vitnað var til að ofan. 

laugardagur, 15. júlí 2023

„Kynferðisofbeldi er sambærilegt ofbeldi gegn ófæddum börnum“


Kristin Turner. Mynd: CNA
Catholic News Agency, Alabama: Ung bandarísk kona, Kristin Turner sem áður studdi fósturdeyðingar sneri við blaðinu í kjölfar kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir af hálfu menntaskólakennara og hélt að hún væri þunguð. Hún rannsakaði fósturdeyðingar frekar og eftir það „þurfti hún að endurskoða“ afstöðu sína til þeirra.

„Ég áttaði mig á því að ofbeldið gegn mér er sambærilegt ofbeldinu sem framið er gegn ófæddu barni sem ekki er litið á sem fullkomlega mannlegt. Barni hvers líkami er ekki virtur og því er leyfilegt að beita það ofbeldi,“ sagði Turner í samtali við Prudence Robertson í nýlegu viðtali á „EWTN Pro-Life Weekly“.

Turner sagði að hún hafi komist að þessari niðurstöðu vegna „margra smáatriða“ en þátttaka hennar í hagsmunabaráttu fyrir lífsvernd hafi átt stóran þátt í henni. 

Birt með leyfi Catholic News Agency. [Tengill]