laugardagur, 19. september 2020

Heimsókn forseta MDE til Tyrklands er réttlætanleg

RÚV greinir frá því að þingmaður Pírata og mannréttindalögfræðingur álíti að nýleg heimsókn forseta Mannréttindadómstóls Evrópu MDE til Tyrklands hafi verið réttlætanleg. Að líkindum er þetta rétt mat. Skortur á samtali og útilokun leiðir að öllu jöfnu til fjarlægðar og kuldalegri samskipta. Til þess er tekið að forseti MDE ræddi og lagði áherslu á mannréttindi í ferð sinni. Vissulega eru gild sjónarmið einnig á móti, en hér þarf  að taka inn í myndina hugsanlegar afleiðingar af því að sleppa því að mæta, hafna heiðrinum, sniðganga þannig og smána Tyrkjastjórn opinberlega. 

Skiljanlegt er að margir sakni meiri mannréttinda í Tyrklandi og baráttumenn þar í landi ætla að tileinka sér óbreyttar fyrirmyndir menningarbyltinga vestursins, þrýsta hart á um sniðgöngu og reyna að flækja utanaðkomandi aðila í þeim átakastjórnmálum sem viðgangast þar. En er hægt að yfirfæra þær hugmyndir óbreyttar á tyrkneskt samfélag og er slíkur þrýstingur og afskipti í átt til útilokunar af hinu góða núna? Eitt er víst, meginland Evrópu á mikið undir því að stjórnmálalegur stöðugleiki haldist í Tyrklandi og þróunin þar verði friðsæl og á þeirra eigin forsendum. 

Hafa ber í huga að heimsókn forseta MDE virkar í báðar áttir. Það er ekki aðeins forseti dómstólsins sem þiggur heiður, því með því að taka á móti honum staðfestist vilji stjórnvalda í Tyrklandi að sýna dómstólnum og því sem hann stendur fyrir opinberan heiður.  Að líkindum eiga unnendur mannréttinda í Tyrklandi meira undir því yfirbragði stjórnvalda í landi sínu heldur en ef samskiptin við MDE dómstólinn þokuðust í átt að alkuli. Sniðganga hefði verið fyrsta skrefið í þá átt. 




þriðjudagur, 8. september 2020

Prófessor hefur áhyggur af stöðu drengja

Visir.is greinir frá því að prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við HR og Háskólann í Þrándheimi hafi áhyggjur af stöðu drengja í íslenska skólakerfinu. Hann bendir á að kynjahlutföllin á háskólunum séu um 70/30 stúlkum í hag og að um 35% drengja 15 ára geti ekki lesið sér til gagns. Hann bendir á að hér taki um 15% drengja á aldrinum 10-15 ára ofvirknislyfið Rítalín en það sé mun hærra hlutfall en í Noregi.  

Formaður Kennarasambands Íslands - KÍ var gestur í síðdegisþættinum Samfélaginu á RÚV 28. ágúst sl. og ræddi m.a. þennan slaka lesskilning. Í máli hans kom fram að hann teldi að ein meginástæðan væri sú að börn sæktu sér ekki afþreyingu í lesefni líkt og tíðkaðist áður. Hér hefur hann að líkindum átt við að núna fanga snjalltæki huga margra í frítímanum. 

Gera má ráð fyrir að foreldrar þurfi enn markvissari stuðning og leiðbeinandi viðmið frá félagsmálayfirvöldum sveitarfélaganna en nú er í boði. Að vísu hafa einhver sveitarfélög gefið út viðmið um skjánotkun en hér þyrfti einnig að koma til tækniaðstoð, s.s. leiðbeiningar um forrit til að auðvelda foreldrum stjórnun snjalltækja og til að nota þau sem skynsamlega umbun en ekki langtíma afþreyingu með tilheyrandi fíkniáhrifum. 

Hér þyrfti að koma ákveðnara frumkvæði frá ríkisvaldinu en einnig frá félagsmálastjórnum sveitarfélaganna því þessi málaflokkur er að stórum hluta á þeirra borði. Afleiðingar af auknu ólæsi ungra karla og menntunargjá milli kynjanna eru ekki góðar en þar á meðal er líklegt að finna megi skort á samtali, sniðgöngu og lakari stöðu á vinnumarkaði auk annars.  Ef einhver lesenda getur bætt við sig bænarefnum þá mætti aukinn lesskilningur pilta og aukin félagslegur stuðningur við foreldra vera þar á meðal. 



miðvikudagur, 2. september 2020

Göngustígarnir: Sveitarstjórnirnar og ríkisvaldið geta gert betur

RÚV greinir frá ófremdarástandi í efri byggðum Kópavogs vegna aksturs ungmenna á léttum bifhjólum á göngustígum. Foreldri líkir ástandinu við villta vestrið. Lögreglan segir vandasamt að leysa málið enda skortir lögregluna bæði lagaheimildir og reglur bæði frá sveitarstjórnum og ríkisvaldinu. Þessir valdhafar fá hér tækifæri til að bæta um betur.  

Í fyrsta lagi er mikilvægt að aðskilja umferð hjólandi og gangandi og gera umferðargötur þannig úr garði að gert sé ráð fyrir að hjólandi umferð fullorðins fólks með bílpróf haldist að mestu á þeim, a.m.k. þar sem hámarkshraðinn er 30. Ef hámarkshraðinn er hærri þarf að líkindum að gera ráð fyrir tvískiptu kerfi göngu- og hjólastíga. 

Í öðru lagi þá er óeðlilegt að fullorðið fólk með bílpróf ferðist hjólandi á mikilli ferð á stígum þar sem gert er ráð fyrir gangandi umferð.  Aðeins virkt eftirlit af hálfu sveitarfélaganna getur breytt þessu, lögregla annar þessu ekki. 

Í þriðja lagi þá ætti ekki að leyfa neinum að aka um á rafskútu eða léttu bifhjóli án þess að fá fræðslu af einhverju tagi. Hægt væri að sjá fyrir sér minnkaða útgáfu af bílprófi sem gæfi unglingum leyfi til að aka þessum hjólum. 

Í fjórða lagi skortir eftirlit á hjóla- og gangstígum. Sveitarstjórnir hafa ekki séð nauðsyn þess ennþá að manna  umferðarvörslu eða neins konar stýringu einkum nálægt fjölförnum svæðum s.s. skólum. Úr þessu þarf að bæta.