þriðjudagur, 8. september 2020

Prófessor hefur áhyggur af stöðu drengja

Visir.is greinir frá því að prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við HR og Háskólann í Þrándheimi hafi áhyggjur af stöðu drengja í íslenska skólakerfinu. Hann bendir á að kynjahlutföllin á háskólunum séu um 70/30 stúlkum í hag og að um 35% drengja 15 ára geti ekki lesið sér til gagns. Hann bendir á að hér taki um 15% drengja á aldrinum 10-15 ára ofvirknislyfið Rítalín en það sé mun hærra hlutfall en í Noregi.  

Formaður Kennarasambands Íslands - KÍ var gestur í síðdegisþættinum Samfélaginu á RÚV 28. ágúst sl. og ræddi m.a. þennan slaka lesskilning. Í máli hans kom fram að hann teldi að ein meginástæðan væri sú að börn sæktu sér ekki afþreyingu í lesefni líkt og tíðkaðist áður. Hér hefur hann að líkindum átt við að núna fanga snjalltæki huga margra í frítímanum. 

Gera má ráð fyrir að foreldrar þurfi enn markvissari stuðning og leiðbeinandi viðmið frá félagsmálayfirvöldum sveitarfélaganna en nú er í boði. Að vísu hafa einhver sveitarfélög gefið út viðmið um skjánotkun en hér þyrfti einnig að koma til tækniaðstoð, s.s. leiðbeiningar um forrit til að auðvelda foreldrum stjórnun snjalltækja og til að nota þau sem skynsamlega umbun en ekki langtíma afþreyingu með tilheyrandi fíkniáhrifum. 

Hér þyrfti að koma ákveðnara frumkvæði frá ríkisvaldinu en einnig frá félagsmálastjórnum sveitarfélaganna því þessi málaflokkur er að stórum hluta á þeirra borði. Afleiðingar af auknu ólæsi ungra karla og menntunargjá milli kynjanna eru ekki góðar en þar á meðal er líklegt að finna megi skort á samtali, sniðgöngu og lakari stöðu á vinnumarkaði auk annars.  Ef einhver lesenda getur bætt við sig bænarefnum þá mætti aukinn lesskilningur pilta og aukin félagslegur stuðningur við foreldra vera þar á meðal. 



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir birtast ekki sjálfkrafa né strax og eru því aðeins samþykktar að þær fari ekki út fyrir efni blogggreinar, séu orðaðar kurteislega og feli ekki í sér árás eða ögrun þjóðfélagshópa né persónuárásir. Og skrifið undir fullu nafni!