laugardagur, 19. september 2020

Heimsókn forseta MDE til Tyrklands er réttlætanleg

RÚV greinir frá því að þingmaður Pírata og mannréttindalögfræðingur álíti að nýleg heimsókn forseta Mannréttindadómstóls Evrópu MDE til Tyrklands hafi verið réttlætanleg. Að líkindum er þetta rétt mat. Skortur á samtali og útilokun leiðir að öllu jöfnu til fjarlægðar og kuldalegri samskipta. Til þess er tekið að forseti MDE ræddi og lagði áherslu á mannréttindi í ferð sinni. Vissulega eru gild sjónarmið einnig á móti, en hér þarf  að taka inn í myndina hugsanlegar afleiðingar af því að sleppa því að mæta, hafna heiðrinum, sniðganga þannig og smána Tyrkjastjórn opinberlega. 

Skiljanlegt er að margir sakni meiri mannréttinda í Tyrklandi og baráttumenn þar í landi ætla að tileinka sér óbreyttar fyrirmyndir menningarbyltinga vestursins, þrýsta hart á um sniðgöngu og reyna að flækja utanaðkomandi aðila í þeim átakastjórnmálum sem viðgangast þar. En er hægt að yfirfæra þær hugmyndir óbreyttar á tyrkneskt samfélag og er slíkur þrýstingur og afskipti í átt til útilokunar af hinu góða núna? Eitt er víst, meginland Evrópu á mikið undir því að stjórnmálalegur stöðugleiki haldist í Tyrklandi og þróunin þar verði friðsæl og á þeirra eigin forsendum. 

Hafa ber í huga að heimsókn forseta MDE virkar í báðar áttir. Það er ekki aðeins forseti dómstólsins sem þiggur heiður, því með því að taka á móti honum staðfestist vilji stjórnvalda í Tyrklandi að sýna dómstólnum og því sem hann stendur fyrir opinberan heiður.  Að líkindum eiga unnendur mannréttinda í Tyrklandi meira undir því yfirbragði stjórnvalda í landi sínu heldur en ef samskiptin við MDE dómstólinn þokuðust í átt að alkuli. Sniðganga hefði verið fyrsta skrefið í þá átt. 




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir birtast ekki sjálfkrafa né strax og eru því aðeins samþykktar að þær fari ekki út fyrir efni blogggreinar, séu orðaðar kurteislega og feli ekki í sér árás eða ögrun þjóðfélagshópa né persónuárásir. Og skrifið undir fullu nafni!