miðvikudagur, 2. september 2020

Göngustígarnir: Sveitarstjórnirnar og ríkisvaldið geta gert betur

RÚV greinir frá ófremdarástandi í efri byggðum Kópavogs vegna aksturs ungmenna á léttum bifhjólum á göngustígum. Foreldri líkir ástandinu við villta vestrið. Lögreglan segir vandasamt að leysa málið enda skortir lögregluna bæði lagaheimildir og reglur bæði frá sveitarstjórnum og ríkisvaldinu. Þessir valdhafar fá hér tækifæri til að bæta um betur.  

Í fyrsta lagi er mikilvægt að aðskilja umferð hjólandi og gangandi og gera umferðargötur þannig úr garði að gert sé ráð fyrir að hjólandi umferð fullorðins fólks með bílpróf haldist að mestu á þeim, a.m.k. þar sem hámarkshraðinn er 30. Ef hámarkshraðinn er hærri þarf að líkindum að gera ráð fyrir tvískiptu kerfi göngu- og hjólastíga. 

Í öðru lagi þá er óeðlilegt að fullorðið fólk með bílpróf ferðist hjólandi á mikilli ferð á stígum þar sem gert er ráð fyrir gangandi umferð.  Aðeins virkt eftirlit af hálfu sveitarfélaganna getur breytt þessu, lögregla annar þessu ekki. 

Í þriðja lagi þá ætti ekki að leyfa neinum að aka um á rafskútu eða léttu bifhjóli án þess að fá fræðslu af einhverju tagi. Hægt væri að sjá fyrir sér minnkaða útgáfu af bílprófi sem gæfi unglingum leyfi til að aka þessum hjólum. 

Í fjórða lagi skortir eftirlit á hjóla- og gangstígum. Sveitarstjórnir hafa ekki séð nauðsyn þess ennþá að manna  umferðarvörslu eða neins konar stýringu einkum nálægt fjölförnum svæðum s.s. skólum. Úr þessu þarf að bæta. 



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir birtast ekki sjálfkrafa né strax og eru því aðeins samþykktar að þær fari ekki út fyrir efni blogggreinar, séu orðaðar kurteislega og feli ekki í sér árás eða ögrun þjóðfélagshópa né persónuárásir. Og skrifið undir fullu nafni!