laugardagur, 29. ágúst 2020

Skortur á samtali leiðir af sér öfgar

RÚV greinir frá óeirðum og handtökum í Malmö í gær sem urðu í kjölfar kóranbrennu á svæðinu. Það er afleitt að svo mikil andúð fái að varða leiðina í samskiptum ólíkra menningabrota á svæðinu. Lögreglan reynir að lægja öldurnar en hún getur ekki ráðist að rótum vandans því það er á verksviði stjórnmálanna. 

Það er erfitt að líta framhjá því að það að brenna helgirit opinberlega er sterk ögrun og nærtækasta samlíkingin er við krossbrennur Ku klux klan samtakanna. Nærvera hópa af ólíkri menningu er staðreynd sem er komin til að vera og trúfrelsi verður að virða. Hér þyrfti saksóknari að grípa í taumana og sækja þá til saka sem hafa uppi ögranir af þessum toga. 

Þetta gerist á sama tíma og stjórnmál átaka og útilokunar virðast eiga æ meiri hljómgrunn. Hugsuðir meginstraums - stjórnmála virðast sumir aðhyllast þögn og sniðgöngu gagnvart þeim sem hafa uppi öndverð sjónarmið. Afleiðingarnar af þessum skorti á samtali eru enn meiri öfgar. Raunar er það svo að öfgar eru líklega annar mesti vandi sem steðjar að ungu fólki í dag næst á eftir fíknivandanum. Þarna þyrfti að koma til samtal milli þeirra sem aðhyllast andstæð sjónarmið en einnig er nærtækt að ætla að það skorti á samtal og hvatningu til hófstillingar milli kynslóða innan hvors skoðanahópsins um sig.  

Engin ummæli: