|
Ljósmynd: Pexels |
Húsnæðisskorturinn tekur á sig ýmsar myndir, húsnæði er upptekið vegna skammtímagistingar og eitthvað er um að húsnæði sé keypt og standi autt á meðan beðið er eftir hækkun þess á markaði. Háir vextir hamla einnig kaupum. Lagalega séð bera sveitarfélögin mikla ábyrgð á þessu sviði því í reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga kemur fram að:
Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til tíu ára í senn og skal hún staðfest af sveitarstjórn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði. [...]
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ber að fylgja eftir áætlanagerð sveitarfélaga um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og veita ráðgjöf og upplýsingar við áætlanagerðina.
Reglugerð þessi er byggð á húsnæðislögum nr. 44/1998 en í þeim segir í 5. grein:
„Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu. [Jafnframt fer sveitarstjórn með stjórn og samræmingu húsnæðismála á vegum sveitarfélagsins.]“
Ábyrgðin er því hvers sveitarfélags fyrir sig. Umræðan hefur mikið til snúist um deildar meiningar um hvort beri að dreifa byggðinni eða þétta hana, en ekki hvað veldur því að gerð húsnæðisáætlana ber ekki betri árangur en raun ber vitni. Sveitarstjórnarmenn virðast komast upp með meiri vanefndir ábyrgðar sinnar en alþingismenn, hugsanlega vegna lítils stjórnmálaáhuga- og þátttöku almennings. Héraðsfréttamiðlar eru ekki í stakk búnir til að veita þeim aðhald og áhugi RÚV á þessu sviði er sennilega ekki nægur. Einnig kann að vera að þó að sveitarstjórnarmönnum sé falin mikil ábyrgð eru þeir gjarnan að sinna sveitarstjórnarstarfinu í sjálfboðavinnu og virkur tími þeirra í stjórnmálum því oft stuttur.
Talsmenn þéttingar hafa nefnt dýrleika innviðauppbyggingar en vitað hefur verið lengi að byggja þurfi litlar íbúðir. Af hverju sveitarfélögin hafa ekki skipulagt meiri uppbyggingu á minnsta leyfilega húsnæði eða unnið meira að skipulagningu svæða fyrir færanleg smáhýsi er athugunarefni í ljósi ábyrgðar þeirra.
Í ljósi ábyrgðarinnar er einnig undarlegt að oftar en ekki útvista sveitarfélög skipulagsvaldinu til fjárfesta og láta þeim eftir að sjá um deiliskipulagsgerð, hönnun, uppbyggingu innviða og sölu byggingarlóða!
Varðandi dýrleika innviðauppbyggingar hefur talsmaður þéttingar bent á að grunnskóli kosti rúma 4 milljarða. Í framhaldi af því má benda á að venjan er að skólabyggingar eru sérhannaðar og byggðar á staðnum í stað þess að notast við staðlaða hönnun sem tæki tillit til síbreytilegra þarfa skólanna. Skólahús ættu að vera þannig að auðvelt sé að bæta við einingum eða taka þær úr notkun og endurnýja. Þau ættu að vera úr forsmíðuðum einingum sem hægt er að bæta við, taka burt eða raða saman eins og Legókubbum. Þannig ættu mygluvandamál t.d. að verða viðráðanlegri.
Þegar horft er á sumar nýbyggingar skólahúsnæðis síðustu áratuga virðist sem fátt hafi verið sparað til að gera þær að sem glæstustum minnismerkjum um húsagerðarlist. Afurðin er svo gjarnan prjónuð saman við nýjustu kenningar í menntavísindum. Afleiðingarnar eru flóknar byggingar og samsetningar sem iðnaðarmenn hafa þurft að plástra saman eftirá. Þegar upp er staðið er svo barátta við lélega hljóðvist, lýsingu, hita, kulda, leka og þar á eftir myglu íþyngjandi fyrir reksturinn svo árum skiptir.